FréttirSkrá á póstlista

22.05.2008

Starfsmenn af erlendum uppruna á starfsfræðslunámskeiðum

Starfsfræðslunámskeið fyrir fiskvinnslufólk hjá HB Granda eru haldin reglulega og í þessari viku og þeirri næstu taka alls 18 starfsmenn félagsins, sem eiga það sameiginlegt að vera af erlendu bergi brotnir, þátt í námskeiðunum.

Bergur Einarsson, yfirverkstjóri í Norðurgarði, hefur haft umsjón með starfsfræðslunámskeiðunum fyrir HB Granda hin síðari ár en námskeiðin eru haldin í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Fyrir hönd ráðuneytisins hefur Hulda Lilliendahl haft veg og vanda af skipulagningu námskeiðshaldsins. Ráðuneytið sér um útvegun námsgagna, kennara og túlkaþjónustu en starfsfólkið er á launum hjá fyrirtækinu á meðan námskeiðunum stendur.

,,Það eru 13 manns á námskeiðinu í þessari viku, tíu Pólverjar og þrír Tékkar, en í næstu viku verður haldið annað námskeið fyrir fimm kínverska starfsmenn,” segir Bergur en þess má geta að hvert námskeið stendur í viku og fer kennslan fram frá kl. 8 til 16 alla virka daga. Meðal þess, sem fjallað er um á námskeiðunum, eru veiðar og vinnsla og meðferð hráefnisins, öryggis- og hreinlætismál, hjálp í viðlögum og markaðsmál svo fátt eitt sé nefnt. Að sögn Bergs hafa námskeiðin mælst mjög vel fyrir meðal starfsfólksins og ekki spillir fyrir að viðkomandi hækka í launum sem nemur tveimur launaflokkum með þátttöku sinni.

Fyrsta námskeiðið var haldið 1986

Fyrsta starfsfræðslunámskeiðið fyrir fiskvinnslufólk var haldið árið 1986 og var það starfsfólk Granda hf. sem sótti það námskeið. Það var fríður og föngulegur hópur því allt fiskvinnslufólk fyrirtækisins, um 200 manns, tók þátt. Svo skemmtilega vill til að Bergur Einarsson var í þeim hópi og hann man því vel eftir námskeiðinu.

,,Það dugði ekkert minna en húsakynni Háskóla Íslands fyrir fyrsta námskeiðið en nú höldum við námskeiðin í kennslustofu HB Granda á Norðurgarði,” segir Bergur en hann segir að frá árinu 1986 megi telja það starfsfólk fyrirtækisins, sem sótt hefur starfsfræðslunámskeiðin, í einhverjum þúsundum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir