FréttirSkrá á póstlista

20.05.2008

Tóku á móti 14.700 tonnum af kolmunna á tæpum mánuði

Skip HB Granda eru nú hætt kolmunnaveiðum í bili a.m.k. eftir tæpan mánuð á veiðum. Að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Vopnafirði, þar sem kolmunnanum var landað til bræðslu, var bræðslan rekin með nánast hámarksafköstum þennan tíma en verksmiðjan getur tekið á móti 600 tonnum af hráefni á sólarhring.

,,Við hófum að taka á móti kolmunna þann 18. apríl og verksmiðjan var keyrð á fullum afköstum fram til 16. maí að því undanskildu að gera varð hlé á vinnslunni í tvo sólarhringa vegna hráefnisskorts,” segir Sveinbjörn en alls var tekið á móti um 7.000 tonnum af kolmunna í aprílmánuði og um 7.700 tonnum í maímánuði. Að sögn Sveinbjörns gekk allt að óskum á þessum tíma, jafnt landanir sem og vinnslan. Fjórir starfsmenn eru á hverri vakt í verksmiðjunni en unnið er á tveimur 12 tíma vöktum þegar nægilegt hráefni er í boði. Sveinbjörn segir kolmunnann hafa verið mjög gott hráefni framan af en undir blálokin hafi gæðin ekki verið eins mikil.

Gert klárt fyrir norsk-íslensku síldina

Nú tekur við undirbúningur vegna vinnslu á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum hjá HB Granda á Vopnafirði en stefnt er að því að skip félagsins fari til síldveiða í lok júnímánaðar.

,,Ég er að vona að síldin verði þá orðin nægilega feit en samkvæmt því sem ég hef fregnað þá hefur sú síld, sem landað hefur verið nú í maí, verið mjög horuð. Ástandið á síldinni verður best þegar komið er fram í ágúst en þá má búast við því að fituinnihald hennar verði komið í 17-20%,” segir Sveinbjörn. Eftir miklu er að slægjast fyrir bræðsluna því verð á lýsi er nú mjög hátt en eftir á að koma í ljós hve mikil áhersla verður lögð á vinnslu á síld til manneldis á vertíðinni í sumar. Það mun væntanlega ekki síst ráðast af átuinnihaldi og því hve langt þarf að sigla með síldina.

Frábær hafnaraðstaða

Að undanförnu hafa staðið yfir miklar hafnarframkvæmdir á Vopnafirði. Verið er að ljúka við að dýpka innsiglinguna og athafnasvæði fyrir skipin inni í höfninni. Búið er að lengja viðlegukantinn í 240 metra og er dýpið við kantinn 10 metrar. Stefnt er að því að steypa þekjuna á viðlegukantinum í sumar. Verksmiðjustjórinn er að vonum ánægður með þessar framkvæmdir. ,,Hafnaraðstaðan er í einu orði sagt orðin frábær,” segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir