FréttirSkrá á póstlista

16.05.2008

Engir fordómar í garð Granda

,,Hæsti byggingadómur í heimi leit dagsins ljós í dag en Logi Laxdal mætti með þriggja vetra glæsifolann Granda frá Skipaskaga og fékk hann hvorki meira né minna en  8,57 fyrir byggingu.”

Svo segir í frétt á hestafrettir.is en hesturinn, sem hér um ræðir, er þriggja vetra graðfoli í eigu Jóns Árnasonar á Akranesi. Svo skemmtilega vill til að hesturinn er heitinn eftir HB Granda og í fréttinni er verið að lýsa svokölluðum fordómum á hrossum sem fram fóru á svæði Fáks í Víðidal frá því sl. þriðjudag og þar til í gær. Ljóst er af einkunnagjöfinni að litlir sem engir fordómar hafa ríkt í garð Granda.

Jón Árnason, eigandi Granda, var að vonum ánægður með útkomuna þegar tíðindamaður heimasíðu HB Granda hafði samband við hann.

,,Það er reyndar ekki rétt að þetta sé hæsti byggingardómur í heimi en þetta er örugglega hæsta einkunn sem svo ungur hestur hefur fengið,” segir Jón en Grandi er úr hans eigin ræktun. Jón segist hafa nefnt tvo hesta eftir fyrirtækjum á Akranesi, umræddan Granda og svo annan sem fékk nafnið Skaginn. ,,Grandi hefur staðið sig frábærlega vel en Skaginn hefur ekki alveg staðið undir væntingum,” segir Jón en þess má geta að Ingólfur bróðir hans er forstjóri Skagans hf.

Grandi er ákaflega velættaður hestur, undan Gára frá Auðholtshjáleigu og Kviku frá Akranesi, en þess má geta að faðir Gára er hinn heimsfrægi stóðhestur Orri frá Þúfu. Að sögn Jóns verður Grandi áfram hafður graður og stefnt er að því að byrja að temja hann næsta vetur.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir