FréttirSkrá á póstlista

02.05.2008

Breytingarnar á Örfirisey RE eiga að draga úr olíukostnaði

Stefnt er að því að frystitogarinn Örfirisey RE fari til veiða nú um helgina en skipið hefur verið í slipp að undanförnu vegna breytinga og endurbóta sem vonast er til að skili aukinni hagkvæmni. Liður í því er að búið er að setja þriðju togvinduna í skipið sem gerir áhöfninni kleift að stunda veiðar með tveimur trollum samtímis.

Markmiðið með tveggja trolla veiðunum er að auka hagkvæmi veiðanna en reynslan sýnir að slíkar veiðar geta haft töluverðan olíusparnað í för með sér. Að sögn Trausta Egilssonar, skipstjóra á Örfirisey RE, hefur tveggja trolla aðferðin reynst vel á t.d. ýsu- og karfaveiðum og henni hefur einnig verið beitt með góðum árangri á grálúðuveiðum.

,,Það er almennt talað um að aflaaukningin með því að nota tvö troll í stað eins geti verið allt að 70% en aukning í olíunotkun við þetta er hins vegar metin vera á bilinu 30-40%. Það er því verið að eyða minni olíu fyrir hvert veitt kíló af fiski og um það snýst málið,” segir Trausti en að sögn hans breytist bilið milli toghlera ekki með notkun tveggja trolla umfram það sem reyndin er með eitt troll.

,,Nýju trollin eru svokölluð þvermöskvatroll af gerðinni T90 frá Hampiðjunni. Í þeim er samanlagt minna netamagn en í einu stóru trolli og við erum að vonast til þess að þar sem möskvarnir haldast betur opnir á þvermöskvatrollum að þá dragi úr mótstöðunni í sjónum miðað við eitt stórt troll, jafnvel þótt þriðji togvírinn og stórt lóð á milli trollanna bætist við,” segir Trausti. Hann segir að stuðst sé við það viðmið að lóðið vegi um 70% af þyngd toghleranna beggja. Ef notaðir séu toghlerar, sem hvor um sig vegi fjögur tonn, þá þurfi þyngd lóðsins að vera 5,6 tonn.

,,Kvótakerfið hefur stjórnað fiskveiðunum og sókninni í einstakar tegundir en nú þurfum við líka að huga betur að því en nokkru sinni fyrr að nýta olíuna sem best vegna þeirra miklu olíuverðshækkana sem orðið hafa að undanförnu. Ég er einnig að vonast til þess að tveggja trolla veiðarnar gefi okkur aukna möguleika á að sækja í dýrari fisktegundir með hagkvæmari hætti en hægt var með einu trolli. Það hefur stundum komið fyrir í tregfiskiríi að olíukostnaðurinn hafi verið það mikill að við höfum orðið að hætta veiðum,” segir Trausti.

Hægt er að færa togblakkirnar framar í skipið:

Meðal breytinganna, sem gerðar voru á Örfirisey RE, var að nýtt og stærra stýri var sett á skipið. Breyta þurfti blakkaupphengjum vegna tveggja trolla veiðanna og eins var togblökkunum þremur komið fyrir á brautum sem gerir mönnum kleift að færa þær allt að 1,2 metra framar í skipið á meðan verið er að toga. Það nýtist, að sögn Trausta, sérstaklega vel þegar skipinu er beygt enda léttist átakið með tilheyrandi olíusparnaði ef þessari tækni er beitt. Af öðrum breytingum má nefna að brú skipsins var endurnýjuð og meðal nýrra tækja má nefna nýjan fjölgeislasónar frá Furuno og Scanbas tölvu, sem tekur við upplýsingum frá öllum nemum, þ.á.m. afla- og fjarlægðarnemum. Þá var eldhús skipsins endurnýjað og í vinnslurýminu var komið fyrir nýjum hausara frá Fiskvélum, sem vonast er til að bæti nýtinguna frá því sem var, og nýju frystitæki frá Jackstone.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir