FréttirSkrá á póstlista

21.04.2008

Mikilvægasta sjávarútvegssýning heims

- segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Grandi, um European Seafood Exposition í Brussel

,,Sjávarútvegssýningin í Brussel er sú langstærsta sem haldin er í heiminum í dag og þangað koma kaupendur frá öllum heimshornum. Aðrar sýningar komast ekki í hálfkvisti við Brusselsýninguna og reynsla okkar af þátttöku er mjög góð,” segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, sem stendur vaktina í Brussel ásamt fleiri starfsmönnum fyrirtækisins.

Að sögn Svavars er Brussel mikilvægur vettvangur til að kynna HB Granda sem öflugan útflytjanda og birgi fyrir sjávarafurðir. Ekki er svo langt síðan að HB Grandi tók alfarið yfir markaðssetningu afurða sinna, sem ýmis sölusamtök sáu um áður, og segir Svavar að það hafi eðlilega tekið nokkurn tíma að vinna fyrirtækinu sess á erlendum mörkuðum sem sjálfstæður útflytjandi sjávarafurða.

,,Við erum ánægðir með árangurinn og okkar starf nú felst að hluta til í að viðhalda og styrkja tengslin við viðskiptavini okkar á mörkuðum nær og fjær auk þess sem við sækjum fram á nýjum markaðssvæðum. Sýningin í Brussel er góður vettvangur til þess. Við höfum áður stofnað til nýrra viðskiptasambanda í Brussel eða í kjölfar sýningarinnar þar og væntum þess að svo verði einnig að þessu sinni,” segir Svavar Svavarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir