Um Brim

 
Brim hf. á sér langa sögu og býr að mikilli reynslu og þekkingu á nýtingu auðlinda og framleiðslu sjávarafurða sem endurspeglast í öllu starfi þess. Lögð er rík áhersla á háþróaða tækni við veiðar og vinnslu og stöðuga þróun framleiðslunnar. Fyrirtækið framleiðir verðmætar afurðir úr ferskum fiski sem aflað er úr hafinu við Ísland. Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvöllur starfsemi Brims og lögð er áhersla á góða umgengni um auðlindina og ábyrgar fiskveiðar svo komandi kynslóðir geti notið hennar áfram. Brim leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð enda hefur það ætíð verið metnaður fyrirtækisins að öll starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu. 
 
Brim stundar veiðar og vinnslu á botn- og uppsjávarfiski. Hjá fyrirtækinu eru unnin um 800 ársverk til sjós og lands. Afurðirnar eru seldar um allan heim en helstu markaðir eru í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Afríku.
Brim er með samþættan rekstur veiða, vinnslu og markaðssetningar sem stuðlar að skilvirkari framleiðslu og tryggir óhefta leið aflans til kaupanda. Auðvelt er að rekja slóð afurðanna frá afhendingu alla leið aftur til sjávar. Lykillinn að velgengni fyrirtækisins felst í framúrskarandi starfsfólki á sjó og landi sem leggur sig fram við að skila gæðavörum til kaupenda og neytenda.


Brim hf. var stofnað 13. nóvember árið 1985 við sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins. Hét fyrirtækið fyrst Grandi hf. síðar HB Grandi hf. Árið 2019 var nafninu breytt í Brim hf.
 Bæjarútgerð Reykjavíkur á sér langa sögu í Reykjavík en stofndagur hennar er 17. febrúar árið 1947 þegar fyrsti nýsköpunartogarinn, Ingólfur Arnarson, kom til landsins. Bæjarútgerðin rak útgerð og fiskvinnslu í Reykjavík og var til húsa að Grandagarði 8 þar sem nú er Sjóminjasafnið.
 Ísbjörninn var stofnaður 1944 og rak þá hraðfrystihús á Seltjarnarnesi ásamt saltfisk- og skreiðarverkun þar til árið 1979 þegar fyrirtækið flutti starfsemi sína í nýtt frystihús sem félagið byggði í Reykjavík að Norðurgarði í Örfirisey. Í dag eru þar höfuðstöðvar Brims.
 Á síðustu áratugum hefur mikil samþjöppun átt sér stað í sjávarútvegi sem Brim hefur tekið þátt í og leitt. Fyrirtæki sem hafa sameinast Brimi frá árinu 1985 og félagið getur rekið rætur til eru hátt á annan tug. 

Hlutverk

Það er sameiginleg ábyrgð stjórnenda og starfsfólks að halda á lofti því mikilvæga hlutverki sem félagið gegnir í íslenskum sjávarútvegi og með markvissum og nútímalegum aðferðum stendur félagið fyrir ábyrgri verðmætasköpun úr sjávarfangi. 
 
ÁBYRG VERÐMÆTASköpun ÚR SJÁVARFANGI

Hlutverk okkar er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti úr sameiginlegum náttúruauðlindum sem okkur er treyst fyrir. 

Við tryggjum viðskiptavinum okkar stöðugt framboð heilnæms sjávarfangs sem unnið er á hagkvæman hátt úr sjálfbærum stofnum. 

Framtíðarsýn

Brim hefur tekið virkan þátt í þróun sjálfbærs sjávarútvegs á síðustu áratugum og mun félagið áfram beita sér fyrir því af fullri einurð. Framtíðarsýn félagsins er því sú að Brim verði á þeim stað að móta framtíð sjálfbærs sjávarútvegs.

MÓTUM FRAMTÍÐ SJÁLFBÆRS SJÁVARÚTVEGS
  • Við tökum virkan þátt í að móta framtíð íslensks sjávarútvegs. Framtíð sem byggir á nýsköpun, tækniþróun og sjálfbærni.
  • Við sýnum í verki hvernig skilningur og virðing gagnvart samfélaginu, samstarfsfólki okkar og umhverfi fer saman við heilbrigðan og ábátasaman rekstur.
  • Við leitum sífellt leiða til að bæta starfsemi félagsins og gera góðar afurðir enn betri.
  • Við erum ávallt í sóknarhug og leggjum áherslu á að auka framleiðslu virðisaukandi afurða.
  • Við miðlum sögum okkar í þeirri von að aðrir megi læra af þeim, kynnast okkur og uppgötva hversu ljúffeng og eftirsóknarverð fæða íslenskt sjávarfang er.

Vinnustaðurinn

Brim er sjávarútvegsfyrirtæki með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði. Aðalskrifstofur Brims eru við Norðurgarð í Reykjavík. Þar er yfirstjórn botnfisk- og uppsjávarsviðs staðsett ásamt fjármála-, markaðs- og mannauðssviði.
Reynsla og þekking í nýtingu auðlindar og framleiðslu sjávarafurða endurspeglast í öllu starfi fyrirtækisins. Hlutverk starfsfólks spannar alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Brim leggur áherslu á að innan fyrirtækisins starfi hæft og traust starfsfólk sem af fagmennsku og ábyrgð tryggir sjálfbæra nýtingu og hagkvæmni í umgengni við auðlindina. Brim er traustur vinnustaður þar sem stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. Brim er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem leitast er við að hafa gott vinnuskipulag varðandi frítíma og jafnvægi milli fjölskyldu og einkalífs. Brim er jafnréttissinnaður vinnustaður þar sem leitast er við að fá jafnt karla og konur til starfa í hinum ólíku starfahópum vinnustaðarins. Brim hefur öðlast jafnlaunavottun og leyfi frá Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið.
Starfsstöðvar

 

Aðalskrifstofa
Brim Reykjavík

Norðurgarður 1
101 Reykjavík

Sími 550 1000
Brim Akranesi

Akursbraut 3
300 Akranes

Sími 550 1000
Brim Vopnafirði

Hafnarbyggð 7
690 Vopnafirði

Sími 550 1000

Skipurit

 


Þúfa

Árið 2013 efndi HB Grandi, í samstarfi við Samband íslenskra listamanna og Faxaflóahafnir, til samkeppni um nýtt listaverk til að prýða umhverfið við Ísbjörninn, nýja frystigeymslu félagsins sem byggð var sama ár. Fyrir valinu var verkið Þúfa eftir listakonuna Ólöfu Nordal. 
 
Samkvæmt listamanninum er Þúfa manngert átta metra grasivaxið fjall sem hægt er að ganga upp á eftir þar til gerðum stíg. Á toppnum trónir fiskihjallur þar sem þurrkaður er fiskur. Þúfa er brú á milli náttúru og borgar. Verkinu er ætlað að virka bæði í nálægð og fjarlægð og sést það víða að í borginni. Þeir sem ganga upp á toppinn fá að njóta eins tilkomumesta útsýnis yfir Reykjavík sem völ er á. Verkið virkjar öll skilningarvitin og hefur yfir sér hlýju og kunnugleika. Formgerð Þúfunnar er ónáttúruleg enda manngert fjall á manngerðu landi.
 
Jarðvegur úr grunni Ísbjarnarins og sprengigrjót úr holtinu við Hlemm mynda kjarna fjallsins. Til að byggja upp mikinn halla þess reyndist besta aðferðin vera strenghleðsla sem er ævaforn byggingaraðferð þar sem torfi og grjóti er raðað á víxl og myndar afar sterkan vegg. Hjallurinn efst er gerður úr rekaviði. Landið sem Þúfa er reist á er landfylling og er því um ónumið manngert land að ræða - land án ,,náttúrulegrar náttúru‘‘, menningar eða sögu. Starfsmenn félagsins eru hinir nýju landnemar. Í vinnslusal félagsins við Norðurgarð vinnur fólk sem kemur alls staðar að úr heiminum, frá öllum heimsálfum, alið upp við margs konar menningu og trúarbrögð. 
 
Meginmarkmiðið í hugmyndavinnu Þúfu var að gera verk sem hefði sameiginlega skírskotun í mannlega og menningarlega hætti. 

Þúfa var vígð við hátíðlega athöfn þann 21. desember 2013.

Ísbjörninn 

Á Sjómannadaginn 2013 var ný frystigeymsla við húsnæði félagsins á Norðurgarði vígð við hátíðlega athöfn. Efnt var til nafnasamkeppni á meðal starfsmanna og bar nafnið Ísbjörninn sigur úr býtum. Nafnið hefur skírskotun í sögu félagsins þar sem fyrirtækið Ísbjörninn var eitt af þeim fyrirtækjum sem nú mynda Brim. Ísbjörninn er alls 3.800 fermetrar, þar af er frystigeymslan 2.600 fermetrar og getur hýst allt að 6.000 tonn af frystum afurðum.

Frystigeymslan bætti úr brýnni þörf fyrir frystirými en með byggingu hennar er staða gömlu hafnarinnar í Reykjavík styrkt sem fiski- og fiskvinnsluhöfn.

Svanur 

Í nóvember 2015 var ný flokkunarstöð félagsins opnuð við hátíðlega athöfn. Flokkunarstöðin fékk nafnið Svanur en það vísar bæði í útgerðarfélagið Svan sem rann saman við félagið árið 2004, auk þess sem svanurinn er norrænt umhverfismerki. Flokkunarstöðin er 240 fm á stærð og er staðsett á lóð Brims í Reykjavík. Tilgangur með starfsemi hennar er að safna saman og flokka sorp sem fellur til á athafnasvæði félagsins í Reykjavík og frá þeim skipum sem landa þar og er gert ráð fyrir að hægt sé að komast hjá því að urða um 40% af almennu sorpi og um 70% af grófu sorpi.

Í fjögur ár hefur Brim einnig flokkað allt sorp sem fellur til á Vopnafirði og hefur reynslan verið mjög góð. Félagið hefur m.a. fengið viðurkenningu frá Hringrás fyrir að starfrækja fyrirmyndarfyrirtæki í umhverfismálum á Vopnafirði.